Að vera rokkari snýst um að jarða rokkið. Hamra á gítarinn eins og það sé í síðasta skipti sem hann er hamraður. Ef maður gefur ekki allt sitt í hvern tón þá getur maður alveg eins sleppt því að vera rokkari og snúið sér að útgáfu matreiðslubóka. Það sama á við þegar maður hlustar á rokk. Það á að rokka mann í eiginlegri og upprunalegri merkingu hins enska orðs. Það á að ýta við manni, hrinda manni, fella mann í jörðina og sturta yfir mann bílhlassi af mold og afþakka alla blóma og kransa.
Fílalag hefur í dag til umfjöllunar ótvíræða rokk-jarðarför. Lagið, sem er frá 1973, kemur frá þýsku rokkurunum í NEU! og það markar ákveðin kaflaskil í tónlistarsögunni. Hljómsveitin var uppbrot úr Kraftwerk, sem síðar átti eftir að drepa í sígarettum á líkkistu rokksins og finna upp raftónlistina, en uppbrotið hélt sig við gítar, bassa og trommu uppsetninguna og keyrði þá hugmynd í yndisfagurt hugmyndafræðilegt gjaldþrot. Það er einkum í þessu lagi, Für Immer (að eilífu), sem skilaboðin koma skýrast fram. Einn hljómur. Ómennskt og stöðugt trommubít. Gítarhömrun líkt og hún sé sú síðasta á jarðríki. Að eilífu, amen.
Þessi útgáfa Fílalags markar jafnframt kaflaskil í sögu þáttarins. Þeir sem ekki fíla lagið Für Immer þurfa að skila IP-tölum sínum til aðstandenda Alvarpsins og munu þeir vera blokkaðir frá öllum frekari lagafílunum í framtíðinni.
Bob Dylan - Workinman's Blues #2 Bob Dylan kjarnar hugmyndina um „boomer". Það er erfitt að kyngja því nú á tímum þegar 37 ára...
Takið fram léttskyggðu fjólubláu sólgleraugun, hneppið niður efstu 3-8 tölunum á skyrtunni/blússunni, ræsið blæjubílinn. Himininn er alblár en er hægt og rólega að leysast...
Bandaríkjamenn eru gíruð þjóð. Ameríka er heimsálfan sem sýgur til sín alla hugmyndastefnur veraldarinnar og bestar þær. Frakkar fundu upp bílinn en Ameríkanar fundu...